Ísland er þekkt víða um lönd sem fyrirmyndarríki þegar kemur að jafnréttismálum. Fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976, landið skorar hátt hátt í alþjóðlegum úttektum á jafnrétti kynjanna og stjórnvöld hafa sett jafnréttismál á oddinn í utanríkisstefnu sinni. Ísland er eitt þeirra landa sem hefur sett reglur um kynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja. Íslenskir bændur hafa líka tekið jafnréttismál til alvarlegrar skoðunar inna raða sinna félagasamtaka. Sú umræða náði flugi þegar Landssamtök sauðfjárbænda fengu Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) til að gera úttekt á stöðu kvenna í íslenskri sauðfjárrækt. Síðan þá hafa tvær konur gengt gengt formennsku í samtökunum. Nú er kona líka í fyrsta sinn formaður Bændasamtaka Íslands.
Jafnrétti í fjölmiðlum
Jafnrétti í fjölmiðlum hefur líka verið ofarlega í umræðunni á Íslandi undanfarin misseri og ár. Félag kvenna í atvinnulífinu hefur staðið framarlega í þeirri baráttu. Í árslok 2015 tók RÚV (ríkisútvarpið) upp markvissar mælingar á hlutfalli karla og kvenna í hópi viðmælenda í föstum þáttum og fréttum. Árangurinn er augljós og RÚV hlaut meðal annars Fjölmiðlaviðurkenningu jafnréttisráðs árið 2016. Árið 2018 var kynjahlutfall í dagskrá RÚV hnífjafnt. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 63% karlar og 37% konur.
Að vilja jafnrétti
Sjálfur vann ég um árabil sem fréttamaður hjá RÚV, Stöð 2 og NFS (Nýja fréttastöðin). Það var einmitt á þeim árum sem umræðan um kynjahlutfall viðmælenda var að ná fullum þunga. Í nokkrar vikur á síðustu ævidögum NFS sá ég um þáttinn Pólitíkina sem var umræðuþáttur um stjórnvöld. Þar var kynjahlutfallið 55% konur og 45% karlar. Já, það var bókhald. Síðar framleiddi ég átta þátta sjónvarpsseríu um íslenskan mat sem sýnd var á RÚV árið 2016. Um 60% viðmælenda í þáttunum voru konur en um 40% karlar. Í mínum huga snýst þetta um vilja og ásetning.
Fullt jafnrétti enn ekki í höfn
Sem betur fer hefur náðst góður árangur í jafnréttismálum á Íslandi með samstilltu átaki margra. Jafnréttisáætlanir, kynjasamþætting og á stundum hörð lagafyrirmæli hafa komið okkur langt. Árangurinn er augljós þegar kemur að jafnrétti í stjórnsýslunni og í stjórnmálum og birtist okkur skýrt þegar við horfum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. En það stingur hins vegar í stúf að sjá hversu karllægt viðskiptalífið er enn. Samkvæmt nýlegri úttekt Kjarnans stýra karlar flestum lífeyrissjóðum, bönkum og sjóðum og 91% íslenskra fyrirtækja af þeirri gerðinni. Capacent hefur komist að sömu niðurstöðu samkvæmt nýlegri frétt á RÚV. Þetta á líka við um íslensk smásölu- og matvælafyrirtæki. Það er ekki víst að við kæmum sérlega vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti innan þess geira. Þessum fyrirtækjum er að mestu stýrt af körlum. Er það eins og við viljum hafa það?
