Innlend framleiðsla í gegnum kófið

Liðið ár var eitt það skrýtnasta sem við Íslendingar höfum upplifað. Heilu atvinnugreinarnar lögðust á hliðina vegna Kóvíd faraldursins og atvinnuleysið var 12% undir lok árs. Aldrei hafa sést viðlíka margar hópuppsagnir, ríkissjóður er rekinn með miklum halla og sveitarfélögin í vanda. Ef horft er á jákvæðu hliðina má hins vegar benda á að við höfum farið betur út úr þessu en margir aðrir, samstaða þjóðarinnar hefur verið aðdáunarverð og bóluefnið langþráða loksins orðið að veruleika.

Á næstu misserum bíður okkar svo að vinna okkur upp úr efnahagslægðinni. Vonandi nær ferðaþjónustan sér á skrið sem fyrst og vissulega skipta aðgerðir og fjárfestingar stjórnvalda talsverðu máli. Á hinu síðarnefnda að minnsta kosti, er hins vegar ekki hægt að byggja til framtíðar. Eina raunhæfa leiðin til að endurreisa efnahaginn er að nýta hugvit, þekkingu og auðlindir til að byggja upp framleiðslu sem gefur gjaldeyristekjur.

Miklu meiri gróska er hefðbundnum greinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði en margur heldur. Fjölda spennandi nýsköpunarfyrirtækja er að finna um allt land þar sem vel menntað og reynslumikið fólk vinnur að snjöllum lausnum og leiðum til að skapa hér fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar. Sem betur fer eru sum þeirra komin á það stig tekjur streyma inn í þjóðarbúið.

Þegar svona árar er mikilvægt er að hið opinbera verji því litla nýsköpunarfé sem til er á skynsamlegan hátt. Stífni í regluverki, langur afgreiðslutími umsókna og ósveigjanleiki stofnanna er ekki eitthvað sem við höfum efni á núna.

Sem betur fer berast inná milli jákvæðar fréttir úr atvinnulífinu. Frá Reykjanesbæ, þar sem atvinnuleysið er yfir 20%, berast vissulega fréttir af ábyrgum viðbrögðum bæjaryfirvalda, en líka uppbyggingu við höfnina og fjögurra milljarða stækkun líftæknifyrirtækisins Algalífs. Það er vel, því innlend, sjálfbær, gjaldeyrisskapandi framleiðsla á grundvelli hugvits og nýsköpunar er það sem mun koma okkur í gegnum kófið.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 8. janúar 2021.