Hvað er vara í skilningi markaðsfræðinnar?

Hefðbundin markaðsfræðileg skilgreining á vöru er sú, að hún sé allt sem hægt er að bjóða á markaði til notkunar eða neyslu gegn greiðslu í einhverju formi.

Getur vara getur verið næstum hvað sem er?

Ýmislegt getur þannig flokkast sem vara út frá sjónarhóli markaðsfræðinnar.  Hvort sem það er hugmynd, þjónusta, fyrirtæki, manneskja eða hefðbundin áþreifanleg vara sem hægt er að snerta, þefa af eða borða. Áþreifanlegar vörur geta síðan annað hvort verið þróaðar og með sterka stöðu á markaði eða vanþróaðar með lélega markaðsstöðu. Stjórnmál og stjórnmálamenn eru gott dæmi um eitthvað sem almenningur lítur ekki á sem vöru, í sama skilningi og t.d. kaffi, en eru það hins vegar í skilningi markaðsfræðinnar.

Eru umbúðir hluti vörunnar?

Við markaðssetningu er mjög mikilvægt að skilgreina strax í upphafi hvers konar vöru á að bjóða.  Varan þarf að hafa einhverja eftirsóknarverða eiginleika eins og útlit, hollustu, notagildi, styrk, bragð eða slíkt. Varan þarf að samræmast þeim stöðlum, lögum og reglum sem gilda um hana á viðkomandi markaði og allir tæknilegir þættir og leyfi þurfa að vera til staðar. Umbúðirnar þurfa að vera aðlaðandi, hagnýtar og í samræmi við lög og reglur. En þetta er samt ekki nóg. 

Bæði stjórnmál og kaffi eru vörur í skilningi markaðsfræðinnar.

Hver kaupir vöru sem ekki er á boðstólum?

Jafnvel hin fullkomna vara er gagnslaus nema henni sé komið á markað. Enginn mun kaupa vöru sem hvergi er á boðstólum eða er ekki tiltæk kaupandanum. Ganga þarf frá samningum við sölu- og dreifiaðila, sjá til þess að ytri umbúðir séu í lagi og að dreifileiðir séu tryggðar. Þegar allt þetta er í höfn getur hið raunverulega markaðsstarf hafist.

Við hvern er verið að tala?

Markaðssetning er fjölbreytt ferli og margt sem þarf að athuga. Hvort á að markaðssetja vöruna til fyrirtækja (B2B) eða beint til neytenda (B2C)? Þegar það liggur fyrir eru svo milljón ólíkar leiðir til að ná til viðskiptavinanna, hvort sem þeir eru neytendur eða fyrirtæki. En kjarninn í allri markaðssetningu felst samt í því að segja sögu og vita við hvern maður er að tala. Stundum getur sagan haft með verðið að gera, einhverja kosti vörunnar, birgjana sem leggja til hráefnið eða fólkið á bak við vöruna eða fyrirtækið. En markaðssetning er alltaf frásögn af einhverju tagi.

Öll markaðsseting felst í því að segja sögu og vita við hvern maður vill tala.

Er hægt að hlaupa yfir skref?

Samfélagmiðlar eru frábært tæki til að segja sögur. En til að geta notað þá þarf varan að vera tilbúin, í skilningi þess sem að framan var sagt, og sölu- og dreifileiðir verða að vera tryggar. Sagan geymir óteljandi dæmi um frábæra markaðssetningu á vöru sem ekki var tilbúin fyrir markað, eða þar sem nægilega góðar sölu- og dreifileiðir voru ekki til staðar. Allar þessar tilraunir enduðu illa og fjármunum var kastað á glæ. Það er ekki hægt að hlaupa yfir skref í þessu ferli. Ekki ef maður vill ná þeim árangri sem maður gæti náð!

Hvert er eðli samfélagsmiðla?

En það er heldur ekki nóg að allt þetta sé tilbúið, til að hefja farsæla markaðsherferð á samfélagsmiðlum. Ef stjórnendur og markaðsmenn skilja ekki eðli og kjarna þessara miðla, er hætt við því að árangurinn láti á sér stand. Samfélagsmiðlar snúast fyrst og fremst um fólk, samband og traust. Meira um það síðar.