Hugmyndafræði Slow Food samtakanna gengur út á að styðja við og hampa hefðbundnum og staðbundnum mat, líffræðilegum fjölbreytileika, smáum framleiðendum, matarhefðum og -menningu. Slow Food er fjöldahreyfing milljóna manna í 160 löndum sem trúa því að bæta megi veröldina í gegnum ábyrga matvælaframleiðslu, aukna umhverfisvitund og bættar neysluvenjur.
Alþjóðlega Slow Food hreyfingin var stofnuð árið 1989 í bænum Bra í Piedmonte héraði á Norður Ítalíu af hópi fólks sem vildi sporna gegn sífellt auknum og neikvæðum áhrifum stórmarkaða og skyndibita á hefðbundna matarmenningu. Upphafið má rekja til mótmæla við opnun McDonalds staðar við Spænsku tröppurnar í Róm árið 1986.

Samtökin starfa undir slagorðunum gott, hreint og sanngjarnt – Good, Clean, Fair. Gott stendur fyrir gæði, bragð og heilnæmi. Hreint stendur fyrir umhverfisvæna framleiðslu án aðskota- eða eiturefna. Sanngjarnt stendur fyrir aðgengileika fyrir neytendur og sanngjörn kjör fyrir framleiðendur.
Sérstök áhersla er lögð á varðveislu erfðafræðilegs fjölbreytileika undir hatti sérstakrar stofnunar – Slow Food Foundation for Biodiversity, sem heldur utan um Bragðörkina – Ark of Taste. Það er öflugt verkefni sem snýr að varðveislu á réttum, nytjaplöntum og búfjárstofnum. Íslensku landnámskynin, laufabrauð, hangikjöt, kleinur og nokkrar aðrar íslenskar matvörur eru skráðar í Bragðörkina.

Alþjóðlegar tengsla- og matarhátíðir eru mikilvægur þáttur í starfsemi Slow Food. Stærstar þeirra eru Terra Madre í Tórínó og Slow Food Cheese í Bra, sem um 300 þúsund manns sóttu í september 2019 og áður hefur verið fjallað um hér á þessum síðum. Þá eru Slow Food samtökin einn stofnaðila matarháskólans í Pollenzo – University of Gastronomic Sciences.
Þúsundir ungmenna um allan heim vinna að bættri framtíð í gegnum mat með þátttöku í ungmennahreyfingu Slow Food – Slow Food Youth Network. Hluti af Slow Food hreyfingunni er sérstakt bandalag matreiðslumanna með deila hugmyndafræði samtakanna – Slow Food Chef Alliance, sem nokkrir íslenskir matreiðslumenn tilheyra. Starf Slow Food á Íslandi hefur verið öflugt á liðnum árum, þökk sé vöskum hópi sjálfboðaliða.

Slow Food hreyfingin er fjármögnuð með framlögum félaga, styrkjum og hagnaði af bókaútgáfu og annarri starfsemi. Carlo Petrini hefur verið forseti hreyfingarinnar frá upphafi. Hann heimsótti Ísland árið 2017 og hélt fjölsóttan fyrirlestur í Hákólabíói. Heimsóknin vakti töluverða athygli og rætt var við Petrini í Bændablaðinu og Kastljósi RÚV. Þar lýsti hann því yfir að íslenskt lambakjöt væri það besta sem hann hefði nokkru sinni smakkað!