Eru samfélagsmiðlar góðir til að markaðssetja matvörur?

Möguleikar smárra framleiðenda til að markaðssetja matvörur hafa aukist mjög mikið á síðustu árum með tilkomu samfélagsmiðla. En slík markaðssetning þarf að vera unnin á skipulagðan og úthugsaðan hátt. Uppbygging vörumerkis er einn af lykilþáttunum í slíku ferli, þar sem vörumerki er mikilvæg umgjörð utan um þau skilaboð sem framleiðandinn vill koma á framfæri við mögulega neytendur eða kaupendur. Fólk þarf að vita hver er að tala. 

Er hægt að bæta við samfélagsmiðla stefnumótun eftirá?

Stefnumörkun fyrir vörumerki þarf að vera nátengd hugmyndafræði vörumerkisins og framleiðandans. Árangursrík notkun samfélagsmiðla getur aldrei verið án djúprar tengingar við heimspekilega nálgun eða hugmyndafræði vörumerkisins. Hún getur aldrei verið viðbót við aðra markaðssetningu eða eitthvað sem er bætt við eftirá. Þetta á sérstaklega við um stefnumótun fyrir markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla fyrir matvörur frá smáum framleiðendum. 

Það er mikilvægt að það sé vörumerki á bak við skilaboð á samfélagsmiðlum. Fólk þarf að vita hver talar.

Skipta samfélagsmiðlar máli?

Markaðssetning á samfélagsmiðlum hefur orðið mikilvægari eftir því sem notkunin verður meiri. Í janúar 2019 notuðu um 4,4 milljarðar manna internetið. Þetta er um 57% mannkyns. Stór hluti, um 3,5 milljarðar, voru virkir á samfélagsmiðlum. Það er um það bil 45% allra karla, kvenna eða barna á jörðinni. Um það bil 66% jarðarbúa nota farsíma, eða 5,1 milljarður. Flestir þeirra, um 63%, nota samfélagsmiðla í farsímum sínum. Rannsóknir sýna hins vegar að á bilinu 40% til 70% þeirra fjármuna sem settir eru í markaðssetningu á samfélagsmiðlum og internetinu skila sér hvorki í sölu né bættri ímynd. Þess vegna er mikilvægt að vanda til verka.

Framtíðin er núna.

Samfélagsmiðlar eru ekki lengur framtíðin eða eitthvað sem hægt er að bæta við markaðsáætlanir á lokasprettinum. Þeir eru löngu orðnir ómissandi hluti af allri markaðssetningu. Þetta á sérstaklega við um litla matvælaramleiðendur, frumkvöðla, og handverksfólk. Þessir aðilar þurfa að ná til síns markhóps í gegnum allan þann hávaða og ógrynni upplýsinga sem dynur á neytendum í gegnum internetið, samfélagsmiðla og nútíma fjöldamiðla.

Samfélagsmiðlar eru gott tæki til markaðssetningar á matvöru frá smáum framleiðendum. Hins vegar þarf slík markaðssetning að vera unnin á skipulagðan hátt þess að hún verði árangursrík.
Mörg af öflugustu minn matvælavörumerkjum heimsins fylgja einföldu fjögurra skrefa kerfi við markaðssetningu.

Það eru til leiðir sem virka.

Markviss og árangursrík samfélagsmiðla markaðssetning felur í sér að hlusta og rannsaka, hanna góða áætlun, framkvæma og vera með sívirkt árangursmat. Að fylgja þessum fjórum skrefum er sérstaklega mikilvægt við markaðssetningu matvöru og sérhæfðra landbúnaðarafurða. En fyrst er mikilvægt að hugsa um fyrstu skrefin í því að þróa vöru eða hugmynd, þar sem markaðssetning er auðvitað meginþátturinn. Áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi hvað getur talist vera vara í skilningi markaðsfræðinnar. Fljótlega verður svo fjallað um eðli samfélagsmiðla og það sem virðast ætla að verða helstu straumar og setfnur á árinu 2020.