Af hverju er plast vandamál?

Undnafarið hefur verið mikil umræða um úrgangsplast í náttúrunni og af hverju það er vandamál? Því er í raun auðsvarað. Það er hið gríðarlega umfang og sífellt vaxandi notkun á plasti. Árlega eru framleiddar 348 milljónir tonna af plasti í heiminum. Um 60 milljón tonn af því eru framleidd í Evrópu. Til samanburðar var framleidd 1,5 milljón tonn af plast í heiminum árið 1950.

Plastnotkun í heiminum heldur áfram að aukast.

Helmingurinn verður strax að rusli

Um helmingur af öllu plasti sem framleitt er í heiminum verður jafnharðan að rusli. Þetta er aðallega umbúðaplast. Um þriðjungur af umbúðaplasti í Evrópu er endurunninn. Endurvinnslan getur verið með ýmsum hætti en aðeins hluti þess plasts sem er safnað fer aftur inn í framleiðsluhringrásina. Stór hluti er brenndur. 

Hlutur Evrópu minnkar þótt framleiðslan aukist

Jafnvel þótt plastframleiðsla í heiminum haldi enn áfram að aukast þá hefur hlutur Evrópu í heildar framleiðslunni minnkað lítilega. Úr 21% árið 2011 í 18% árið 2017. Stór hluti, 60%, af úrgangsplasti í Evrópu má rekja til umbúða utan um mat og drykk. Plastmengun er alheimsvandamál því úrgangsplast sem er komið út í náttúruna virðir ekki landamæri.

Notkun a plasti í heiminum heldur áfram að aukast. Stór hluti eru einnota umbúðir sem verða strax að rusli. Endurvinnslu er verulega ábótavant.
Úrgangsplast í náttúrunni virðir enginn landamæri. Rusl á strönd í Gana.

Rúlluplastið skilar sér vel til endurvinnslu

Á Íslandi falla til um 13.500 tonn af plastumbúðum árlega (tölur frá Úrvinnslusjóði fyrir 2016). Um 1.500 tonn eru heyrúlluplast, rúmlega 10.000 tonn eru innfluttar umbúðir og tæplega 2.000 tonn eru innlend framleiðsla. Samkvæmt tölum Úrvinnslusjóðs er nánast öllu heyrúlluplasti skilað inn til endurvinnslu en aðeins um fjórðungi annars umbúðaplasts. Þessi góðu skil á heyrúlluplasti eru með því besta sem gerist.

Nánast öllu rúlluplasti á Íslandi er skilað til endurvinnslu.

Plastið verður að rusli og veldur mengun í sjónum

Því miður endar stór hluti af umbúðaplasti, og öðru plasti, úti í náttúrunni þar sem það brotnar oft niður í örlitlar plastagnir (e. microplastics) sem finna sér leið inn í lífverur úti í náttúrunni. Hluti þessara plastagna kemur úr fötum úr gerviefnum sem eru þvegin. Rannsóknir sýna að örplastagnir eru í neysluvatni og fiski.  Um 80% af öllu rusli í sjónum er plast.

Plast getur verið gott en endurvinnslan þarf að vera í lagi

Plast getur verið gott efni til að nota í ýmsar endingargóðar vörur, en umbúðaplast, drykkjarrör og einnota plastáhöld valda hins vegar mikilli mengun. Sundum er reyndar nauðsynlegt að nota plast í umbúðir og notkunin getur minnkað líkur á að matvæli skemmist og þar með dregið úr matarsóun. Allt þetta þarf að taka með í reikninginn. Íslenskir grænmetisbændur hafa gengið á undan með góðu fordæmi og nýta sér auknu mæli jurtaplast sem brotnar niður í náttúrunni.

Sundum getur notkun á plastumbúðum aukið endingartíma matvæla og þaar með unnið gegn matarsóun.

Vill Ísland vera í fararbroddi í umhverfismálum?

Mögulegt er að minnka skaðleg áhrif af plasti á náttúrunni með því að nýta í auknu mæli plastefni sem unnin eru úr plöntuleifum en ekki olíu. Plast er vandamál, sérstaklega ofnotkun á því þar sem aðrir möguleikar eru í boði, og að sjálfsögðu ætti endurvinnsla á því að að vera miklu betri en nú er. Sérstaklega á Íslandi sem vill vera í fararbroddi þjóða varðandi umhverfismál. Boltinn er hjá hjá okkur öllum, neytendum, framleiðendum og stjórnvöldum sem móta stefnu fyrir samfélagið í gegnum lög og reglur. Það þarf rótækar aðgerðir til að taka á vandanum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *